Stórskyttan Ragnheiður Júlíusdóttir er samningsbundin Íslands- og bikarmeisturum Fram út næsta keppnistímabil.
Þegar Morgunblaðið innti hana eftir því hvort hún væri farin að horfa til þess að spreyta sig erlendis þá sagðist hún gera það en væri ekkert að flýta sér.
„Já, ég horfi alveg til þess að fara í atvinnumennsku en ég er ekki að drífa mig í því ef ég á að vera hreinskilin. Ég er gríðarlega ánægð eins og er. Mér líður mjög vel í Fram með Stebba [Stefán Arnarson] sem þjálfara og vera með öllum þessum stelpum í liði eins og Karen, Þóreyju, Steinunni og Guðrúnu til að nefna einhverjar. Þetta er ótrúlega gaman og leikmannahópurinn er gríðarlega þéttur. Ég er samningsbundin til 2019 og ég verð því hér á næsta ári en svo kemur bara í ljós hvað gerist þá,“ sagði Ragnheiður þegar Morgunblaðið ræddi við hana í Safamýrinni eftir að Íslandsbikarinn fór á loft á fimmtudagskvöldið. kris@mbl.is