Deildarmeistarar Vals í handbolta kvenna tilkynntu í dag um gríðarmikinn liðsstyrk sem félagið hefur tryggt sér. Fjórir nýir leikmenn hafa samið við félagið og Íris Ásta Pétursdóttir hefur framlengt samning sinn en hún spilaði ekkert í vetur vegna barneigna.
Eins og fram kom í Morgunblaðinu í morgun eru þær Lovísa Thompson, Sandra Erlingsdóttir og Íris Björk Símonardóttir búnar að semja við Val, en þar að auki er Alina Molkova, 21 árs eistneskur landsliðsmaður, komin frá Víkingi þar sem hún skoraði að meðaltali 9,9 mörk í leik í vetur.
Lovísa og Sandra hafa báðar verið lykilmenn í U20-landsliði Íslands, sem komið er á HM, sem og sínum félagsliðum. Lovísa kemur frá Gróttu sem féll úr Olís-deildinni í vetur en Sandra kemur frá ÍBV. Íris Björk tekur nú fram skóna að nýju eftir að hafa tekið sér hlé í kjölfar Íslandsmeistaratitilsins með Gróttu 2016. Íris, sem er fyrrverandi landsliðsmarkvörður, er 31 árs gömul.
Valsliðið missir hins vegar frá síðasta tímabili þær Díönu Satkauskaite, markvörðinn Línu Melvik Rypdal og Ólöfu Kristínu Þorsteinsdóttur.