Handknattleiksmaðurinn Arnar Birkir Hálfdánsson úr liði Fram er á leið til danska úrvalsdeildarliðsins SönderjyskE.
Þetta kemur fram á vef danska blaðsins Jydske Vestkysten. Arnar Birkir, sem er 25 ára gamall og er vinstri handarskytta, var til skoðunar hjá danska liðinu á dögunum og mun ganga í raðir félagsins í sumar.
SönderjyskE hafnaði í 11. sæti í dönsku úrvalsdeildinni á leiktíðinni. Liðið fór í umspil um að halda sæti sínu. Þar er liðið í efsta sæti og ljóst er að það heldur sæti sínu í deild þeirra bestu.
Arnar Birkir, sem einnig hefur leikið með ÍR og FH, var í B-landsliðinu sem mætti Hollendingum og Japönum á æfingamóti í Hollandi í síðasta mánuði. Hann varð langmarkahæsti leikmaður Fram í Olís-deildinni á tímabilinu en hann skoraði 118 mörk í 22 leikjum liðsins í deildinni.