„Ég heyrði fyrst í Stjörnunni nokkrum dögum eftir að úrslitakeppninni lauk. Þá heyrði Basti í mér og lét mig vita af sínum áhuga og þaðan fóru málin hægt og rólega að þróast," sagði Guðrún Ósk Maríasdóttir, landsliðsmarkmaður í handbolta, um aðdraganda félagsskiptanna frá Fram til Stjörnunnar í dag.
Guðrún var búin að taka ákvörðun um að taka sér hlé frá handbolta, þegar símtalið frá Stjörnunni kom.
„Fyrsta sem ég hugsaði var hversu slæm tímasetning þetta væri því ég var búin að ákveða að taka mér pásu, en svo leyfði ég þessu aðeins að melta og talaði við eiginmanninn og fjölskyldu og þá komumst við að þessari niðurstöðu að taka 1-2 ár í viðbót. Ég var komin með hugann annað. Ég er búin að vera í 100% mastersnámi, 100% vinnu, í handboltanum og svo með langveikt barn. Það var því ansi mikið álag á síðasta tímabili."
Sebastian Alexandersson, nýr þjálfari Stjörnunnar, var á sínum tíma einn besti markmaður landsins. Guðrún segir það langþráðan draum að spila undir stjórn Sebastians, eða Basta.
„Basti var mikið aðdráttarafl fyrir mig. Ég hef viljað æfa undir hans stjórn síðan ég var 16-17 ára gömul. Hann hefur af og til komið og hjálpað mér, en það hefur alltaf verið draumur að vera alfarið undir hans stjórn. Maður hefur fylgst með Basta í gegnum árin, hann er mikill karakter sem hægt er að læra af."
Stjarnan komst ekki í úrslitakeppnina á síðustu leiktíð og það eru vonbrigði þar á bæ.
„Ég hef ekki hitt hópinn en ég hef heyrt að allir séu tilbúnir að byrja að æfa og koma sér í gírinn fyrir næsta tímabil."
Hún hugsar að það verði erfitt að mæta Fram á næstu leiktíð og bætti við að hún hefði trú á Heiðrúnu Dís Magnúsdóttur, sem var varamarkmaður Fram í vetur.
„Það verður eflaust erfitt, en maður þarf að gíra sig í þann leik eins og hvern annan leik. Ég heyrði nú í þeim og lét þau vita af minni ákvörðun. Auðvitað er þetta sárt fyrir Fram, ég skil þau ekki eftir í frábærri stöðu. Ég hef samt fulla trú á Heiðrúnu sem hefur bætt sig mjög í vetur og vonandi fær hún sitt tækifæri," sagði Guðrún Ósk að lokum.