Virkilega ljótt brot

Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH.
Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari FH. mbl.is/Eggert Jóhannesson

„Við erum fyrst og fremst bara ekki góðir, við byrjum mjög illa. Hægir og slakir sóknar- og varnarlega,“ sagði Halldór Jóhann Sigfússon þjálfari FH eftir 29:22 tap gegn ÍBV í þriðja leik úrslitaeinvígis liðanna um Íslandsmeistaratitilinn í handknattleik karla. Eyjamenn leiða nú einvígið 2:1.

„Það vantaði allan baráttuanda í okkur sem var á heimavelli og við komumst aldrei í takt við leikinn og hreinlega ótrúlegt að við höfum einungis verið að tapa með fjórum til fimm mörkum hér í lokin,“ sagði Halldór.

FH-ingar spiluðu frábærlega á þriðjudaginn og unnu sannfærandi sigur á Eyjamönnum það sama var ekki upp á teningnum í dag.

„Ég hef ekki skýringu á því afhverju við mætum svona til leiks. Við vorum með góðan undirbúning, komum til Eyja í gær og gistum við frábærar aðstæður hjá Magga Braga á hótelinu og því áttu menn bara að vera klárir. En við byrjum bara ekki leikinn og erum andlausir mjög stóran part af leiknum,“ sagði Halldór.

Gísli Þorgeir fékk höfuðhögg í fyrri hálfleik eftir að Andri Heimir braut á honum. Gísli spilaði ekki meira eftir það.

„Það verður hver að dæma fyrir sig. ég er búinn að sjá þetta í sjónvarpinu og þetta er virkilega ljótt brott. Alveg sama hvað gerist, auðvitað er Andri bara að reyna að fara í boltann og allt það. Þetta er slys en þetta er alltaf rautt spjald. Við sáum fyrir stuttu að leikmaður var dæmdur fyrir bann eftir svipað atvik í kvennaleiknum en ég ætla svosem ekki að dæma um það hvort þetta sé bann eða ekki. Dómararnir sáu þetta ekki og því dæma þeir bara eins og þeir sjá,“ sagði Halldór.

Ásbjörn spilaði heldur ekkert í leiknum í dag auk þess að Gísli spilaði bara fyrsta korterið.

„Það er alveg rétt við hefðum þurft meira og þeirra framlag hefðum við þurft í dag. Enn samt við eigum að vera með það gott lið að við eigum að gera betur,“ sagði Halldór.

Næsti leikur er á laugardaginn og FH-ingar eru með bakið upp við vegg.

„Við verðum bara að undirbúa okkur betur. Reyna bæta okkar leik. Við þurfum sigur á heimavelli á laugardaginn og svo vonumst við eftir að koma aftur til Eyja og ná sigri. Eigum ennþá eftir að vinna í Eyjum í vetur,“ sagði Halldór.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert