Fannar Þór Friðgeirsson skrifaði í gær undir tveggja ára samning við Íslandsmeistara ÍBV í handknattleik. Honum er ætlað að fylla skarð það sem Róbert Aron Hostert skildi eftir sig í Eyjum en hann gekk á dögunum til liðs við Val.
Fannar Þór hefur undanfarin átta ár leikið með félagsliðum í þýsku 1. og 2. deildunum. Síðustu tvö árin hjá ASV Hamm en þar á undan hjá Eintracht Hagen, Grosswallstadt, Wetzlar og Emsdetten. Það hefur legið fyrir um nokkurt skeið að Fannar Þór ætlaði sér að flytja heim í sumar eftir veruna í Þýskalandi. Hann lék áður með Val.
Fannar Þór á að baki 11 A-landsleiki og var m.a. í íslenska landsliðinu sem tók þátt í HM á Spáni fyrir fimm árum.
„Fannar Þór kom til Eyja í dag og ætlar að vera með okkur næstu tvö árin hið minnsta. Við erum afar ánægðir með að hafa landað honum enda ætlum við að vera áfram með sterkt lið í keppni um alla titla,“ sagði Davíð Þór Óskarsson, formaður meistaraflokksráðs handknattleiksdeildar ÍBV, glaður í bragði í samtali við Morgunblaðið í gær.