Úrslitum leiksins breytt

Róbert Geir Gíslason, Guðmundur B. Ólafsson, Guðmundur Þórður Guðmundsson, Gunnar …
Róbert Geir Gíslason, Guðmundur B. Ólafsson, Guðmundur Þórður Guðmundsson, Gunnar Magnússon. mbl.is/Kristinn Magnússon

Úrslitum leiks Litháen og Íslands hefur verið breytt í jafntefli 27:27. Litháar fengu skráð á sig mark sem ekki átti að standa en forráðamenn HSÍ náðu að gera athugasemd áður en leiksskýrslan var undirrituð. 

Evrópska handknattleikssambandið hefur sent frá sér tilkynningu þess efnis að úrslit leiksins séu 27:27.

Hér í Siemens Arena í Vilnius hafa dómarar leiksins frá Portúgal og eftirlitsdómarinn frá Lettlandi farið yfir málið. Guðmundur B. Ólafsson, formaður HSÍ og Róbert Geir Gíslason framkvæmdastjóri, kröfðust þess að úrslitum leiksins yrði breytt í 27:27. Höfðu þeir undir höndunum myndskeið sem þeir fengu frá RÚV þar sem annar dómarinn sést dæma ruðning þegar leikmaður Litháa skaut boltanum í mark Íslands.

Svo virðist sem eftirlitsdómarinn og ritararnir hafi ekki tekið eftir ákvörðun dómarans jafnvel þótt Björgvin Páll Gústavsson hafi farið út fyrir teiginn til að taka aukakastið reglum samkvæmt. 

Dómararnir og eftirlitsdómarinn hafa farið yfir sjónvarpsupptökur af leiknum og áttuðu sig á þessum mistökum. Fóru þeir yfir leikinn til að athuga hvort staðan hafi á einhverjum tímapunkti verið leiðrétt. Svo var ekki og lokatölurnar í höllinni 28:27 voru því rangar. 

Forráðamenn litháíska sambandsins eru ekki sáttir við niðurstöðuna og vilja sjálfsagt meina að leikurinn hefði þróast öðruvísi ef markið hefði ekki farið á töfluna. Litháar geta auðvitað kært þessa niðurstöðu til Evrópska handknattleikssambandsins ef þeir kjósa svo.

En rimma liðanna um laust sæti á HM 2019 verður útkljáð í Laugardalshöllinni næsta miðvikudagskvöld. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert