Eva Björk áfram í Kaupmannahöfn

Eva Björk Davíðsdóttir og Mathias Berg íþróttastjóri Ajax Köbenhavn við …
Eva Björk Davíðsdóttir og Mathias Berg íþróttastjóri Ajax Köbenhavn við undirritun nýja samningsins. Ljósmynd/Ajax Köbenhavn

Landsliðskonan í handknattleik, Eva Björk Davíðsdóttir, hefur skrifað undir nýjan eins árs samning við danska úrvalsdeildarliðið Ajax Köbenhavn. Eva Björk gekk til liðs við Ajax fyrir ári síðan og lék alla leiki liðsins á keppnistímabilinu sem lauk í vor. 

Áður var Eva Björk, sem er leikstjórnandi, í eitt ár hjá Sola í Noregi. Eva Björk lék upp yngri flokka og upp í meistaraflokk með Gróttu og varð m.a. Íslandsmeistari með liðinu 2015 og 2016 auk þess að verða bikarmeistari með Seltirningum fyrra árið sem lið þeirra varð Íslandsmeistari. 

Mathias Berg, íþróttastjóri Ajax Köbenhavn, segir í samtali á heimasíðu félagsins vera afar ánægður með að Eva Björk hafi ákveðið að halda áfram hjá félaginu. Hún hafi leikið vel með liðinu á síðasta keppnistímabili og fallið vel inn í leikmannahópinn, jafnt utan  vallar sem innan. 

Eva Björk hefur átt fast sæti í íslenska landsliðinu um nokkurt skeið og lék m.a. alla leiki liðsins í undankeppni EM sem lauk fyrr í þessum mánuði. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert