Íslenska landsliðið í handknattleik kvenna, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, hafnaði í 10. sæti á heimsmeistaramótinu í Ungverjalandi í dag eftir tap fyrir landsliði Króatíu, 36:23, í viðureigninni um níunda sæti mótsins.
Króatar réðu lögum og lofum í leiknum frá upphafi til enda, voru m.a. með sjö marka forskot, 10:3, eftir tíu mínútna leik. Íslenska liðinu tókst að klóra í bakkann fyrir hálfleik en þá var munurinn sex mörk, 17:11.
Króatar voru mikið sterkari í síðari hálfleik og unnu öruggan sigur.
Árangur íslenska liðsins á mótinu er sá besti sem íslenska kvennalandslið hefur náð á heimsmeistaramótinu, óháð aldursflokkum.
Mörk Íslands: Andrea Jacobsen 5, Berta Rut Harðardóttir 4, Sandra Erlingsdóttir 3, Ragnhildur Edda Þórðardóttir 3, Lena Margrét Valdimarsdóttir 2, Berglind Þorsteinsdóttir 1, Elva Arinbjarnar 1, Ásdís Guðmundsdóttir 1, Mariam Eradze 1, Lovísa Thompson 1, Halldóra Sólveig Stefánsdóttir 1.
Varin skot: Heiðrún Dís Magnúsdóttir 7, Ástríður Glódís Gísladóttir 1.