Vafasamt er að Fram eigi eins greiða leið að Íslandsmeistaratitlinum á þessu tímabili og liðið hefur átt tvö undanfarin ár. Miklar breytingar hafa orðið á liðinu sem gera það vafalítið að verkum að róður hins reynda þjálfara, Stefáns Arnarsonar, við stjórnvölinn verður þyngri en áður.
Fram varð Íslands- og bikarmeistari á síðasta keppnistímabili og var hársbreidd frá deildarmeistaratitlinum. Valinn leikmaður var í hverju rúmi. Öflugur varnarleikur og framúrskarandi markvarsla var aðal liðsins. Liðið stóð svo sannarlega undir þeim kröfum sem gerðar voru til þess enda að margra mati eitt besta félagslið sem leikið hafði saman hér á landi um nokkurra ára skeið.
Harðsnúinn kjarni er þó enn fyrir hendi í leikmönnum eins og Karen Knútsdóttur, Þóreyju Rósu Stefánsdóttur, Ragnheiði Júlíusdóttur og Steinunni Björnsdóttur. Auk þess hefur landsliðskonan Unnur Ómarsdóttir bæst í hópinn frá Gróttu og mun verulega styrkja stöðuna í vinstra horninu þar sem Marthe Sördal hefur lítið æft með Fram-liðinu til þessa.
Sjá greinina í heild og umfjöllun um fjögur sigurstranglegustu liðin í Olísdeild kvenna í handbolta í Morgunblaðinu í dag.