ÍR fór tómhent úr Mosfellsbæ eftir spennuleik

Elvar Ásgeirsson sækir að vörn ÍR-inga í gærkvöld.
Elvar Ásgeirsson sækir að vörn ÍR-inga í gærkvöld. mbl.is/Hari

ÍR-ingar voru klaufskir að fá ekki annað stigið úr viðureign sinni við Aftureldingu að Varmá í gærkvöldi þegar liðin leiddu saman hesta sína í annarri umferð Olís-deildar karla í handknattleik.

Eftir hnífjafnan síðari hálfleik var lukkan með Mosfellingum sem unnu með einu marki, 28:27, eftir að hafa verið marki undir í hálfleik, 14:13.

Þar með hefur Afturelding fengið fjögur stig í tveimur fyrstu leikjum sínum en ÍR-ingar bíða enn eftir fyrsta stigi eða stigum sínum.

Í spennuþrungnum lokakafla skoraði Júlíus Þórir Stefánsson sigurmark leiksins rúmri mínútu fyrir leikslok. Hann náði frákasti eftir að Stephen Nielsen, markvörður ÍR, hafði varið skot Gunnars Kristins Þórssonar eftir hraðaupphlaup. Gunnar hafði þá með klókindum unnið boltann af ÍR-ingum.

Bæði lið fengu tækifæri til þess að bæta við mörkum en allt kom fyrir ekki. Ruðningur var dæmdur á ÍR-inga á lokamínútunni auk þess sem fyrrgreindur Stephen varði vítakast Árna Braga Eyjólfssonar þegar um 20 sekúndur voru til leiksloka. ÍR-liðið fékk síðustu sókn leiksins og þótt lögð væru á ráðin um hvernig best væri að ljúka sókninni með markskoti tókst það ekki fyrr en leiktíminn var úti. Þá varði vörn Aftureldingar skot Björgvins Þórs Hólmgeirssonar.

ÍR-ingar lögðu mikið í leikinn. Þeir börðust eins og ljón frá upphafi til enda en allt kom fyrir ekki. Varnarleikur liðsins var góður lengst af auk þess sem Stephen var góður í markinu. Til viðbótar skoraði hann fjögur mörk og munar um minna.

Sjá allt um Olís-deild karla í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert