Ómar Ingi Magnússon, landsliðsmaður í handknattleik, var allt í öllu hjá Aalborg í kvöld þegar liðið burstaði Danmerkurmeistarana Skjern í Íslendingaslag, 37:26, í dönsku úrvalsdeildinni.
Ómar Ingi skoraði 8 mörk úr 9 skotum og varð markahæstur á vellinum en hann átti auk þess 9 stoðsendingar á félaga sína. Janus Daði Smárason skoraði 2 mörk fyrir liðið úr 4 skotum. Arnór Atlason er aðstoðarþjálfari Aalborg.
Tandri Már Konráðsson lék að vanda í vörn Skjern og skoraði ekki. Björgvin Páll Gústavsson varði mark liðsins hluta af síðari hálfleiks og varði 3 skot af 17 sem hann fékk á sig.
Aalborg stakk af á lokakafla leiksins þegar liðið skoraði m.a. nokkur mörk yfir völlinn í tómt markið hjá Skjern sem freistaði þess að ná að minnka muninn með því að leika án markvarðar í nokkur skipti.