„Við stigum frábær skref til framfara í þessum leik,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, eftir eins marks tap, 26:25, fyrir Svíum í vináttulandsleik í Schenker-höllinni á Ásvöllum í kvöld.
„Það er sérstök tilfinning að vera ánægður með frammistöðuna eftir að hafa tapað leiknum. Við hefðum þurft að nýta nokkur dauðafæri og hefðum við unnið leikinn. Ég er stoltur af liðinu eftir þennan leik. Frammistaðan var mjög góð. Ég vona að áhorfendur fjölmenni á síðari leikinn á laugardaginn. Þá gæti allt gerst,“ sagði Axel en Svíar hafa á að skipa einu besta kvennalandsliði heims um þessar mundir og stilltu lengst af í kvöld upp því liði sem hafnaði í fjórða sæti á heimsmeistaramótinu í Frakklandi í desember í fyrra.
„Fimmta leikinn í röð náði liðið að leika gríðarlega góðan varnarleik. Um leið og það tekst leik eftir leik, að mynda varnarmúr, þá auðveldum við okkur leikinn í sókninni. Við fáum fleiri hraðaupphlaup sem léttir pressunni á okkur í sóknarleiknum,“ sagði Axel sem stefnir á að íslenska liðið geri enn betur í síðari viðureigninni við Svía í Schenker-höllinni á laugardaginn.
„Aginn var góður í sóknarleiknum að þessu sinni. Í nokkrum síðustu leikjum höfum við oft lent undir í leikjum snemma gegn betri þjóðum vegna agaleysis í sókninni. Þess vegna var lögð höfuðáhersla á það að þessu sinni að komast í gegnum fyrstu mínúturnar í jöfnum leik. Það tókst. Þegar á leikinn leið þá skein karakter liðsins í gegn. Leikmenn lögðu ekki árar í bát þótt við lentum undir þegar á leið síðari hálfleik. Þvert á móti komu þær til baka og sýndu þolinmæði og aga auk þess sem leikmenn sýndu klókindi og héldu áfram að sækja miskunnarlaust þótt illa gengi að opna vörn sænska liðsins,“ segir Axel sem var ánægður með margt í leik íslenska liðsins eins og fram kemur.
„Nú kom sú staða upp hvað eftir að annað að leikmenn íslenska liðsins vinna stöðuna maður á móti manni í sókninni sem sýnir að margir leikmenn hafa unnið vel í sínum málum. Þar má nefna að Lovísa Thompson, Helena Rut Örvarsdóttir, Thea Imani Sturludóttir og Díana Dögg Magnúsdóttir tættu sig hvað eftir annað í gegnum sterka sænska vörn,“ sagði Axel Stefánsson, landsliðsþjálfari kvenna í handknattleik, í samtali við mbl.is í kvöld.