Nýliðar KA/Þórs unnu sterkan 23:18-sigur á Selfossi á útivelli í Olísdeild kvenna í handbolta í kvöld. Martha Hermannsdóttir skoraði átta mörk fyrir Akureyrarliðið.
KA/Þór náði forystunni snemma leiks og hélst hún út allan leikinn. Staðan í hálfleik var 13:9 og skoraði Þór/KA fyrstu þrjú mörkin í síðari hálfleik sem lagði gruninn að góðum sigri.
Katrín Vilhjálmsdóttir skoraði fjögur mörk fyrir KA/Þór eins og Hulda Bryndís Tryggvadóttir. Sarah Boye Sörensen skoraði mest fyrir Selfoss eða sex mörk og Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir bætti við fjórum mörkum.
Með sigrinum fór KA/Þór upp að hlið hinna nýliðanna í ár, HK, og eru liðin með fjögur stig í fjórða og fimmta sæti. Selfoss er á botninum með aðeins eitt stig.