Búnar að ganga í gegnum erfiða tíma

Ragnheiður Júlíusdóttir átti frábæran leik fyrir Fram í kvöld og …
Ragnheiður Júlíusdóttir átti frábæran leik fyrir Fram í kvöld og skoraði átta mörk. mbl.is/Árni Sæberg

„Ég er hrikalega sátt með þennan sigur. Þetta hefur verið erfitt hjá okkur að undanförnu og það var því mjög mikilvægt að vinna hérna í kvöld,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir, leikmaður Fram, í samtali við mbl.is eftir 27:22-sigur liðsins gegn Val í 9. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld.

„Við höfum verið að ganga í gegnum erfiða tíma og það var mikilvægt að svara tapinu í síðustu umferð með sigri hérna í kvöld. Flæðið í sóknarleiknum hefur ekki verið nægilega gott í undanförnum leikjum og ég sjálf hef ekki verið að finna mig neitt sérstaklega vel. Við undirbjuggum okkur mjög vel fyrir þennan leik og það var mikil spenna hjá öllu liðinu fyrir leiknum í kvöld. Varnarleikurinn var mjög öflugur, sem og sóknarleikurinn og markvarslan var mjög góð þannig að það mætti segja að það hafi allt gengið upp hjá okkur í þessum leik.“

Steinunn Björnsdóttir, fyrirliði Fram, talaði um það eftir tapið gegn Selfossi í síðustu umferð að það hefði verið ákveðin deyfð yfir æfingum liðsins í upphafi tímabilsins. Ragnheiður segir að liðið hafi farið sérstaklega yfir þau mál og nú vonast hún til þess að liðið sé komið á beinu brautina.

„Við fórum sérstaklega yfir það, í aðdraganda leiksins, að við þyrftum að rífa upp gæðin á æfingum og það hefur gengið eftir. Við tókum mjög góða æfingu í gær og það var virkilega gaman á æfingunni. Núna þurfum við að halda áfram á sömu braut. Þetta var einn leikur og núna tekur næsti leikur við og við þurfum að halda áfram að vinna í okkar málum, jafnt og þétt,“ sagði Ragnheiður Júlíusdóttir í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka