Fram nýtti sér hrun Valskvenna

Framkonan Hildur Þorgeirsdóttir sækir að vörn Vals í kvöld.
Framkonan Hildur Þorgeirsdóttir sækir að vörn Vals í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Þær Ragnheiður Júlíusdóttir og Steinunn Björnsdóttir fóru mikinn í liði Fram þegar liðið vann fimm marka sigur gegn toppliði Valskvenna í 9. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Hlíðarenda í kvöld en leiknum lauk með 27:22-sigri Fram.

Mikill hraði var í leiknum til að byrja með og liðin skiptust á að halda forystunni. Eftir fimmtán mínútna leik var munurinn á liðunum orðinn þrjú mörk og Valskonur virtust vera með tögl og hagldir á vellinum. Þá gerðu Framkonur áhlaup og þeim tókst að jafna metin þegar tæpar tíu mínútur voru eftir af fyrri hálfleik. Ágúst Þór Jóhannsson, þjálfari Valskenna, tók leikhlé en það gerði lítið fyrir Valsliðið og Framkonur héldu áfram að þrýsta á Valsliðið sem gerði hver klaufamistökin á fætur öðru og staðan 14:11 í hálfleik, Fram í vil.

Valskonur mættu afar grimmar til leiks í síðari hálfleiks og þær voru búnar að jafna metin eftir 37. mínútna leik. Þegar rúmlega fimmtán mínútur voru til leiksloka höfðu gestirnir úr Safamýrinni tveggja marka forskot en Valskonur gáfust ekki upp og alltaf tókst þeim að jafna metin. Þegar tíu mínútur voru til leiksloka var staðan 22:22 en þá kom algjört hrun í sóknarleik Vals. Framkonur skoruðu að vild og Sara Sif Helgadóttir varði mjög vel í marki Fram. Valskonum tókst ekki að skora á síðustu tíu mínútum leiksins, á meðan Fram skoraði fimm mörk og lokatölur á Hlíðarenda því fimm marka sigur Fram.

Lovísa Thompson var atkvæðamest í liði Vals með sex mörk en hjá Fram skoruðu þær Ragnheiður Júlíusdóttir og Steinunn Björnsdóttir átta mörk hvor. Íris Björk Símonardóttir varði tólf skot í liði Vals en Sara Sif Helgadóttir tíu skot, þar af eitt vítakast, í liði Fram. Valskonur eru áfram á toppi deildarinnar með 13 stig en Fram er komið í þriðja sæti deildarinnar í 12 stig. 

Valur 22:27 Fram opna loka
60. mín. Íris Björk Símonardóttir (Valur) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert