Hulda Dís Þrastardóttir tryggði Selfyssingum jafntefli í háspennu leik þegar Selfoss fékk HK í heimsókn í 10. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik á Selfossi í dag en lokatölur urðu 27:27. Selfoss byrjaði leikinn betur og náði mest þriggja marka forskoti í fyrri hálfleik en HK kom tilbaka og staðan í hálfleik 17:15, HK í vil.
Selfyssingum tókst að minnka muninn niður í eitt mark í upphafi síðari hálfleiks en þá settu HK-ingar í annan gír og var munurinn á liðunum fimm mörk þegar tíu mínútur voru til leiksloka. Hafnhildur Hanna Þrastardóttir tók þá til sinna ráða og tókst að jafna metin í 25:25 en aftur komst HK yfir þegar mínúta var til leiksloka.
Það var svo Hulda Dís Þrastardóttir sem jafnaði metin fyrir Selfoss með lokaskoti leiksins og lokatölur því jafntefli í hörku leik. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var atkvæðamest í liði Selfyssinga með 11 mörk, þar af 5 af vítalínunni og Perla Ruth Albertsdóttir skoraði sex mörk. Hjá HK var Díana Kristín Sigmarsdóttir markahæst með fimm mörk og þær Helena Ósk Kristjánsdóttir, Valgerður Ýr Þorsteinsdóttir og Elva Arinbjarnar skoruðu fjögur mörk hver.
Jafntefli gerir lítið fyrir bæði lið en Selfoss er sem fyrr á botni deildarinnar með 4 stig eftir fyrstu tíu leikina en HK er í sjötta sætinu með 7 stig, einu stigi minni en KA/Þór. Stjarnan er í sjöunda sæti deildarinnar með 6 stig.