Arna Sif Pálsdóttir er leikreyndust liðsmanna íslenska kvennalandsliðsins sem tekur þátt í undankeppni heimsmeistaramótsins í Skopje á föstudag, laugardag og á sunnudag. Hún hefur leikið 139 leiki og nálgast óðum Hönnu Guðrúnu Stefánsdóttur sem leikið hefur 142 landsleiki og er önnur landsleikjahæsta landsliðskona Íslands. Enn er nokkuð í þá leikjahæstu, Hrafnhildi Ósk Skúladóttir sem leikið hefur 170 landsleiki.
Arna Sif hefur verið í landsliðinu í rúman áratug og var m.a. þátttakandi í lokakeppni EM 2010 þegar íslenska kvennalandsliðið tók þátt í lokakeppni stórmóts í fyrsta sinn. Einnig var hún með á HM árið eftir og á EM2012 þegar Ísland vann sér síðast þátttökurétt í lokakeppni.
Þórey Rósa Stefánsdóttir er næst leikjahæst af núverandi landsliðskonum sem eru í hópnum með 91 landsleik. Hún lék með á HM 2011 og á EM 2012 eins og annar markvörður íslenska landsliðs um þessar mundir, Guðný Jenny Ásmundsdóttir.
mbl.is er með kvennalandsliðinu för í Skopje og mun fylgjast með öllum leikjum liðsins í beinni textalýsingu.