„Ef maður getur einhvern tímann sagt að flagð sé undir fögru skinni þá á það við um þetta fólk. Viðkynningin í upphafi var frábær en þetta er búið að vera hreint helvíti,“ segir Þorgeir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Hauka, um samskipti félagsins við færeysku handknattleikskonuna Turið Arge Samuelsen og hennar fólk.
Haft var eftir Turið á færeyska vefmiðlinum in.fo að hún væri hætt í Haukum og að félagið hefði ekki staðið við gerða samninga. Þorgeir segir það helberar lygar og hefur mbl.is undir höndum gögn því til staðfestingar, bæði leikmannasamning Turið og launaseðla. Þar kemur fram að hún hafi átt að fá samtals 640.000 krónur yfir tíu mánuði, í tíu jöfnum greiðslum. Þá heitir félagið henni starfi hjá frístundaheimili Hauka, þar sem Turið starfaði eftir hádegi á virkum dögum og fékk 143.552 krónur á mánuði fyrir, og fríu húsnæði.
Turið, sem kom til Hauka í sumar og hefur gegnt stóru hlutverki í liðinu, er hins vegar farin til Færeyja og virðist ekki vera á leiðinni til Íslands aftur í bráð, þó að samningur hennar við Hauka sé í raun enn í gildi.
Þorgeir segir Hauka hafa útvegað húsnæði fyrir Turið og fjölskyldu hennar, eins og heitið var í samningnum, og útvegað manni hennar, Rúni Joensen, vinnu hjá Smyril Line eins og einnig var lofað. Því hafi honum blöskrað algjörlega að sjá Turið halda því fram að ekki hefði verið staðið við gerða samninga, en þess ber að geta að Þorgeir hefur haldið um stjórnartaumana hjá handknattleiksdeild Hauka um langt árabil og hefur því áralanga reynslu af því að semja við leikmenn.
„Þetta er mesti viðbjóður og lygar sem sagðar hafa verið um okkur, því við höfum staðið við hvert einasta atriði og greitt hverja einustu krónu á nákvæmlega þeim degi sem átti að greiða, og jafnvel fyrr í eitt skiptið vegna peningaskorts hjá henni. Það eina sem ekki hefur verið staðið við í samningnum er að hún hefur ekki þjálfað 3. flokk kvenna eins og hún átti að gera, en samt fengið greitt,“ segir Þorgeir, en skýrt kemur fram í samningi við Turið að hún eigi að vera aðstoðarþjálfari 3. flokks kvenna.
„Við erum svo brjáluð yfir þessu. Pabbi hennar, hann Uni, hefur staðið á bakvið þetta allt saman og þetta er það alljótasta sem ég hef átt við. Hrein og klár lygi,“ segir Þorgeir, og vísar þar til Uni Arge sem lék knattspyrnu á Íslandi á árum áður.
Þorgeiri blöskrar framkoma Turið ekki síður vegna þess að allt hafi verið reynt til að koma til móts við færeysku fjölskylduna. Elías Már Halldórsson þjálfari hafi lánað þeim bíl í sex vikur og Turið hafi fengið full laun greidd þrátt fyrir að vera töluvert í burtu í haust. Turið og barn hennar fengu svo flugmiða til að fara til Færeyja yfir jólin eins og heitið var í samningnum.
„Við sitjum svo uppi með íbúðina sem við útveguðum þeim, samkvæmt bundnum samningi fram til 10. júní. Skaði okkar er því húsaleiga sem við þurfum að greiða út þann tíma, og að hún átti að þjálfa 3. flokk með Elíasi Má en hefur ekki mætt á eina einustu æfingu til þess,“ segir Þorgeir, en samningur Turið er raunar enn í gildi:
„Samningurinn er bara í gildi og félagaskipti fyrir hana verða ekki samþykkt fyrr en þessi mál komast á hreint,“ segir Þorgeir, en Turið er samningsbundin Haukum til næstu tveggja ára, með uppsagnarákvæði í apríl.