Handknattleikskonan Turið Arge Samuelsen hefur fengið samningi sínum við Hauka rift vegna vanefnda, eftir því sem fram kemur á færeyska vefmiðlinum in.fo.
Turið kom til Hauka frá Færeyjum í sumar og til stóð að hún spilaði tvær leiktíðir með Hafnarfjarðarliðinu. Hún segist hafa notið sín vel hjá Haukum og verið ánægð með samherja sína og þjálfara, en að hún hafi ekki getað lifað í óvissu vegna vanefnda á samningi. Hún flutti til Íslands ásamt manni sínum, Rúni Joensen, sem lék nokkra leiki með varaliði Hauka.
Parið er nú farið aftur til Færeyja en Turið mun þar snúa aftur í lið Kyndils. Hún skoraði 30 mörk í 10 leikjum fyrir Hauka og er í 3.-4. sæti yfir markahæstu leikmenn liðsins í vetur.