Arnar Freyr fer til GOG

Arnar Freyr Arnarsson í leik með íslenska landsliðinu.
Arnar Freyr Arnarsson í leik með íslenska landsliðinu. Ljósmynd/Uros Hocevar

Landsliðsmaðurinn Arnar Freyr Arnarsson sem hefur leikið með sænska meistaraliðinu Kristianstad undanfarin þrjú ár mun ganga í raðir danska úrvalsdeildarliðsins GOG á næstu leiktíð.

Arnari Frey er ætlað að leysa línumanninn Lars Hald af hólmi en Arnar er 22 ára gamall línumaður sem fór til Kristianstad frá Fram árið 2016.

„Við erum búnir að semja við Arnar og höfðum betur í baráttunni við lið í Þýskalandi. Við erum mjög ánægðir að hann hafi valið GOG,“ segir Kasper Jørgensen yfirmaður handboltamála hjá GOG í samtali við danska blaðið Fyens Stiftidende.

Arnar, sem er í 20 manna æfingahópi íslenska landsliðsins fyrir HM, verður þar með liðsfélagi hornamannsins Óðins Þórs Ríkharðssonar sem gekk í raðir GOG frá FH í sumar. GOG er í öðru sæti dönsku úrvalsdeildarinnar, stigi á eftir Aalborg.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert