Akureyri staðfestir brotthvarf Sverre

Sverre Andreas Jakobsson verður ekki með Akureyri eftir áramót.
Sverre Andreas Jakobsson verður ekki með Akureyri eftir áramót. Ljósmynd/Þórir Tryggvason

Eins og mbl.is greindi frá fyrr í kvöld mun Sverre Jakobsson ekki halda áfram sem þjálfari Akureyrar handknattleiksfélags. Félagið staðfesti þetta á heimasíðu sinni rétt í þessu. 

Mbl.is greindi einnig frá því að Geir Sveinsson, fyrrverandi landsliðsþjálfari, yrði eftirmaður Sverre. Akureyri hefur hins vegar ekki staðfest það enn. Hér að neðan má sjá yfirlýsingu sem kom frá félaginu í kvöld. 

Yfirlýsing frá Akureyri handboltafélagi

Sverre er þakkað fyrir sitt ómetanlega framlag til félagsins á undanförnum árum, fyrst sem leikmaður og síðar sem þjálfari. Sverre hefur markað djúp spor í sögu félagsins síðan hann gekk í raðir þess árið 2014.

Sverre lék 47 leiki fyrir Akureyri og skilur eftir sig eitt met í metabókum félagsins þar sem hann er elsti leikmaðurinn til að leika fyrir félagið frá upphafi, 40 ára og 268 daga gamall þegar hann lék sinn síðasta leik. Síðan skórnir fóru á hilluna hefur Sverre einbeitt sér að þjálfun liðsins og stýrði liðinu eftirminnilega upp úr Grill 66-deildinni á síðustu leiktíð.

Stjórn Akureyrar Handboltafélags vinnur nú að leit af eftirmanni Sverre. Vonir standa til að búið verði að ráða nýjan þjálfara þegar leikmenn mæta aftur til æfinga eftir jólafrí þann 2.janúar næstkomandi.

Næsti leikur okkar manna í Olísdeildinni er þann 2. febrúar næstkomandi þegar Haukar koma í heimsókn í Höllina.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert