Erfiðar ákvarðanir framundan

Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands, á hliðarlínunni gegn Barein.
Guðmundur Guðmundsson, þjálfari Íslands, á hliðarlínunni gegn Barein. mbl.is/Hari

„Ég fékk nokkur góð svör í þessum leik en tíminn er knappur og núna þurfum við að taka nokkrar erfiðar ákvarðanir og það gæti vel farið svo að tökum sautján leikmenn með okkur til Noregs,“ sagði Guðmundur Þórður Guðmundsson, þjálfari íslenska karlalandsliðsins í handknattleik, í samtali við mbl.is eftir 36:19-sigur íslenska liðsins gegn Barein í vináttuleik í Laugardalshöll í dag.

„Ég á von á því að ég muni tilkynna hópinn sem tekur þátt í æfingamótinu í Noregi á nýársdag. Mér fannst allir sem spiluðu í dag standa sig vel. Varnarleikurinn var mjög öflugur og þeir voru í miklum vandræðum nánast allan leikinn. Það vantaði tvo sterkar leikmenn hjá þeim en að sama skapi fannst mér við halda sömu línu í vörninni, allan leikinn, þrátt fyrir að við höfum skipt ört, sérstaklega í síðari hálfleik. Ég hef ekki tekið endanlega ákvörðun um lokahópinn en línumaðurinn Arnar Freyr Arnarsson er með einhverja áverka í andliti en það eru mjög miklar líkur á því að hann verði með á HM.“

Íslenska landsliðið er að ganga í gegnum miklar breytingar og viðurkennir Guðmundur að það sé erfitt verkefni framundan að velja lokahópinn fyrir heimsmeistaramótið í Þýskalandi og Danmörku sem hefst í janúar.

Heimir Óli Heimisson, línumaður Hauka, er einn af þeim sem …
Heimir Óli Heimisson, línumaður Hauka, er einn af þeim sem er að berjast um sæti í lokahópnum fyrir HM. mbl.is/Hari

Tökum einn leik fyrir í einu

„Við höfum verið að vinna í því að yngja hópinn upp og þar af leiðandi eru fleiri leikmenn að slást um sæti í lokahópnum. Það er líka þannig að það er ekkert svakalegur getumunur á þeim leikmönnum, sem eru einna helst að banka á dyrnar, og það gerir valið mun erfiðara. Við erum að gera gríðarlegar breytingar á liðinu, bæði sóknar- og varnarlega, og nú fáum við nokkra leiki til þess að undirbúa okkur betur áður en alvaran hefst á HM.“

Landsliðsþjálfarinn vonast til þess að komast áfram í milliriðla á HM í janúar en ítrekar að verkefnið framundan sé afar strembið.

„Við ætlum okkur að taka einn leik fyrir í einu en markmiðið er að sjálfsögðu að komast áfram í milliriðla. Það þarf mjög margt að ganga upp, ef það á að ganga eftir, en ég vil ekki gefa út nein ákveðin markmiðið fyrir liðið á þessum tímapunkti,“ sagði Guðmundur í samtali við mbl.is.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert