Steinunn best hjá Fram

Steinunn Björnsdóttir er íþróttamaður Fram árið 2018.
Steinunn Björnsdóttir er íþróttamaður Fram árið 2018. Ljósmynd/Fram

Handboltakonan Steinunn Björnsdóttir var í dag valin íþróttamaður Fram árið 2018. Steinunn varð Íslands- og bikarmeistari með Fram fyrr á árinu og er hún búin að skora 54 mörk í níu leikjum í Olísdeildinni á leiktíðinni. 

Steinunn er fædd árið 1991, er uppalin í Fram og spilaði upp alla yngri flokka Fram. Steinunn hóf að leika með meistaraflokki Fram veturinn 2009 – 2010 og hefur nú leikið hátt í 300 leiki með meistaraflokki Fram.

„Steinunn var í barneignarfrí fyrri part síðasta keppnistímabil. Hún átti stúlku um miðjan desember 2017, en hún var engu að síður mætt til leiks í fyrsta leik meistaraflokks eftir áramótin 2017/2018, þann 14. janúar.

Steinunn hefur síðan þá varla misst úr leik með meistaraflokki og verið lykilleikmaður hjá Fram sem varð Íslands- og bikarmeistari árið 2018,“ segir í yfirlýsingu sem Fram sendi frá sér í dag. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert