Geir Sveinsson hefur verið ráðinn þjálfari handknattleiksliðs Akureyrar en þetta staðfesti Skapti Hallgrímsson blaðamaður á Twitter-síðu sinni í dag. Geir tekur við liðinu af Sverre Jakobssyni sem hætti mjög óvænt með liðið í lok desember.
Akureyri er sem stendur í tíunda sæti Olísdeildarinnar með átta stig eftir fyrstu 13 umferðirnar. Geir Sveinsson er fyrrverandi fyrirliði íslenska karlalandsliðsins en hann þjálfaði síðast íslenska landsliðið á árunum 2016 til ársins 2018.
Geir hefur ekki þjálfað á Íslandi síðan hann stýrði Gróttu árið 2011 en hann hefur meðal annars þjálfað lið á borð við Bregenz í Austurríki og Magdeburg í Þýskalandi.