Handknattleiksþjálfarinn Halldór Jóhann Sigfússon hefur tekið að sér að þjálfa U21 árs landslið Barein í karlaflokki en liðið tekur þátt í heimsmeistaramótinu sem fram fer á Spáni í sumar.
Þetta hefur mbl.is eftir heimildum.
Halldór Jóhann er þjálfari karlaliðs FH.
Þar með verða tveir íslenskir handknattleiksþjálfarar í vinnu hjá handknattleikssambandi Barein.
Aron Kristjánsson er þjálfari A-landsliðs Barein. Hann tók við þjálfun þess á síðasta ári af Guðmundi Þórði Guðmundssyni og er meðal annars með lið sitt í sama riðli og Ísland á heimsmeistaramótinu sem stendur nú yfir í Þýskalandi og Danmörku.