Frumkvæðið kemur ekki frá ríkisvaldinu

Laugardalshöllin
Laugardalshöllin mbl.is/Ófeigur Lýðsson

Ekki virðist vera mikil vinna í gangi vegna þess vandamáls sem Handknattleiks- og Körfuknattleikssamband Íslands standa frammi fyrir og hafa raunar staðið frammi fyrir um nokkra hríð.

Síðustu árin hafa bæði sérsamböndin fengið undanþágur til þess að halda hér á landi landsleiki hjá A-landsliðum í undankeppnum stórmóta vegna þeirrar staðreyndar að ekkert íþróttahús á Íslandi stenst þær kröfur sem alþjóðasamböndin setja. Hefur þetta oftar en einu sinni verið til umfjöllunar hér á síðum Morgunblaðsins.

Enn sem komið er snýst málið um áðurnefndar íþróttagreinar. Blaklandsliðin geta leikið hvort heldur sem er í Laugardalshöll eða í Digranesi sem standast þær kröfur sem Alþjóðablaksambandið setur. Forráðamenn HSÍ og KKÍ hafa kallað eftir aðgerðum þar sem erfitt er að segja til um hversu lengi Ísland fær undanþágur að utan. Séu undanþágurnar ekki fyrir hendi verður ekki annar möguleiki í stöðunni en að íslensku A-landsliðin í handknattleik og körfuknattleik spili mótsleiki sína á erlendri grundu.

Ríkið eða sveitarfélögin?

Málið er ekki einfalt. Hvort snýr slíkt vandamál að ríkisvaldinu að sveitarfélögunum? Eða hvoru tveggja? Laugardalshöllin hefur verið þjóðarleikvangur fyrir þessar íþróttagreinar. Höllin er í eigu Reykjavíkurborgar en einnig Samtaka iðnaðarins. Er hún rekin af ÍBR, Íþróttabandalagi Reykjavíkur. Þegar Morgunblaðið ræddi við þá Róbert Geir Gíslason, framkvæmdastjóra HSÍ, og Hannes Sigurbjörn Jónsson, formann KKÍ, í fyrra vegna málsins þá kom fram hjá þeim báðum að þeir voru ánægðir með viðbrögð starfsfólks Laugardalshallar. Þar á bæ séu menn tilbúnir til að koma til móts við þær kröfur sem undanþágunum fylgja.

Landsliðin á hrakhólum

Í máli þeirra kom einnig fram að íþróttagreinarnar sem þeir eru í forsvari fyrir þyrftu á nýjum þjóðarleikvangi að halda. Landsliðin þurfi einnig samastað til að æfa og undirbúa sig undir mótsleikina. Slíkt húsnæði myndi þá einnig nýtast blaklandsliðunum. Landsliðin hafa verið á hrakhólum fyrir landsleiki og verið upp á náð og miskunn einstakra félaga og sveitarfélaga komin. Hafa flakkað á milli íþróttahúsa á höfuðborgarsvæðinu til að æfa fyrir mikilvæga landsleiki. Laugardalshöllin er nýtt í ýmiss konar viðburði eins og landsmenn þekkja. Þar að auki eiga þar félög samastað eins og Ármann og Þróttur. Þau eiga þar sína tíma og varla sanngjarnt gagnvart þeim að sífellt sé gengið inn í þeirra tíma í Laugardalshöllinni.

Sjá alla greinina og viðtöl við Guðmund B. Ólafsson formann HSÍ og Ingvar Sverrison formann Íþróttabandalags Reykjavíkur í íþróttablaði Morgunblaðsins í dag
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert