Arnar Birkir Hálfdánsson og Rúnar Kárason létu mikið að sér kveða í kvöld þegar lið þeirra, SønderjyskE og Ribe-Esbjerg, mættust í afar mikilvægum leik í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
Liðin heyja nánast einvígi um áttunda og síðasta sætið í úrslitakeppninni um danska meistaratitilinn. Ribe-Esbjerg vann útisigur, 29:27, og þar með eru liðin jöfn í 8. og 9. sætinu með 18 stig, átta stigum á eftir næstu liðum fyrir ofan en fimm stigum á undan næsta liði fyrir neðan, þegar fimm umferðir eru eftir.
Rúnar skoraði 9 mörk fyrir Ribe-Esbjerg í leiknum og þá gerði Gunnar Steinn Jónsson tvö mörk fyrir liðið. Arnar Birkir skoraði 7 mörk fyrir SønderjyskE.