Selfoss fór upp að hlið Vals og FH í Olísdeild karla í handbolta með flottum 26:25-sigri á Val í Origo-höllinni í kvöld. Nökkvi Dan Elliðason skoraði sigurmarkið 30 sekúndum fyrir leikslok.
Fyrri hálfleikurinn var jafn og skemmtilegur en Selfyssingar voru yfir stærstan hluta hans. Selfoss komst í 3:1 snemma leiks, en Valur jafnaði í 3:3. Selfoss náði þriggja marka forskoti um miðjan hálfleikinn, 8:5.
Þá tók Snorri Steinn Guðjónsson, þjálfari Vals, leikhlé og skömmu síðar voru Valsmenn komnir yfir í fyrsta skipti, 10:9. Selfoss komst hins vegar aftur yfir og skoraði Elvar Örn Jónsson síðasta mark hálfleiksins og sá til þess að staðan í hálfleik var 12:11, Selfossi í vil.
Valsmenn voru sterkari í upphafi síðari hálfleiks og náðu fljótlega tveggja marka forystu í fyrsta skipti í leiknum, 15:13. Valsmenn voru áfram í bílstjórasætinu næstu mínútur og þegar seinni hálfleikur var hálfnaður var staðan 19:17.
Þá komu tvö í röð hjá Selfossi og staðan 19:19 þegar þegar tæpt kortér var eftir. Alexander Már Egan fékk gott tækifæri til að koma Selfossi yfir en hann skaut í slá úr góðu færi í horninu. Valsmenn refsuðu með næstu tveimur mörkum og komust í 21:19.
Leikurinn var áfram hnífjafn og var staðan 24:24 þegar rúmar tvær mínútur voru til leiksloka. Liðin skiptust á að skora undir lokin og var staðan 26:25, Selfossi í vil, þegar 20 sekúndur voru til leiksloka eftir að Nökkvi Dan Elliðason skoraði úr þröngu færi.
Ásgeir Snær Vignisson fékk dauðafæri til að jafna leikinn í blálokin en hann skaut í stöng og Selfyssingar fögnuðu.