ÍBV vann öruggan sigur á HK, 31:19, í 17. umferð Olís-deildar kvenna í handbolta í Vestmannaeyjum í kvöld. ÍBV er því með 19 stig í 4. sæti deildarinnar, tveimur stigum á undan KA/Þór í baráttunni um sæti í úrslitakeppninni og fjórum stigum á eftir Haukum í 3. sæti.
Staðan í hálfleik var jöfn, 12:12, en eftir að staðan hafði verið 15:15 skellti ÍBV í lás og skoraði níu mörk í röð, og komst í 24:15.
Landsliðskonan Arna Sif Pálsdóttir, línumaður ÍBV, stal senunni í Eyjum en hún skoraði 10 mörk úr 12 skotum samkvæmt tölfræðiyfirliti HB Statz. Ester Óskarsdóttir var næstmarkahæst hjá ÍBV með 5 mörk en hún stóð einnig vörnina vel og stal boltanum til að mynda þrisvar. Hjá HK var Díana Kristín Sigmarsdóttir, fyrrverandi leikmaður ÍBV, markahæst með 8 mörk. Hafdís Shizuka Iura kom næst með 3 mörk.
HK er áfram í næstneðsta sæti með sjö stig, þremur stigum fyrir ofan Selfoss og fjórum á eftir Stjörnunni en bæði lið eru að spila þessa stundina.