Selfoss vann gríðarlega mikilvægan sigur á FH í toppbaráttu Olísdeildar karla í handbolta í kvöld, 26:23, í Hleðsluhöllinni á Selfossi.
Þó að sóknarleikur Selfyssinga hefði tekið dýfu um miðjan leikinn þá spiluðu þeir frábæra vörn allan tímann. Grunnurinn að sigrinum var lagður í fyrri hálfleik þar sem heimamenn múruðu fyrir markið og náðu mest sex marka forskoti. Staðan í hálfleik var 13:8.
FH byrjaði betur í seinni hálfleik en eftir að Selfoss hafði ekki skorað mark í sautján mínútur var munurinn kominn niður í tvö mörk, 14:12. Nær komust gestirnir ekki, Selfyssingar rifu sig aftur í gang og ákveðinn vendipunktur varð síðan þegar rúmar 10 mínútur voru eftir þegar Ágúst Birgisson fékk rautt spjald í liði FH. Það virtist hafa nokkur áhrif á gestina sem virtust ekki líklegir til afreka eftir það.
Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk og þeir Hergeir Grímsson og Elvar Örn Jónsson skoruðu báðir 4. Pawel Kiepulski tók sig til og varði 14 skot í marki Selfoss.
Hjá FH var Jóhann BIrgir Ingvarsson bestur en hann skoraði 8 mörk í leiknum. Fleiri létu ekki til sín taka hjá Fimleikafélaginu en Birkir Fannar Bragason varði 7 skot eftir að hafa komið inn af bekknum.