Valur vann Fram örugglega, 24:21, í úrslitaleik Coca Cola-bikars kvenna í handknattleik í Laugardalshöll í dag. Valur með betra liðið í leiknum frá upphafi til enda og gerði út um leikinn í síðari hálfleik með hreint framúrskarandi leik. Valur var tveimur mörkum yfir í hálfleik, 13:11.
Valur byrjaði leikinn mun betur og var kominn með fjögurra marka forystu, 6:2, eftir tíu mínútna leik. Eftir leikhlé af hálfu Fram-liðsins tókst liðinu að komast betur inn í leikinn og leika af meiri þolinmæði gegn ógnarsterkri vörn Vals sem stýrt var að hinni þrautreyndu Önnu Úrsúlu Guðmundsdóttur. Fram jafnaði metin, 8:8, á nítjándu mínútu og komst yfir 11:10, nokkru fyrir hálfleik. Valur sneri talfinu við og skoraði þrjú síðustu mörk hálfleiksins og gekk til búningsherbergja með tveggja marka forystu, 13:11, og það verðskuldaða eftir að hafa verið betra liðið.
Leikurinn var hraður og skemmtilegur í fyrri hálfleik. Liði reyndu eftir megni að keyra upp hraðann, ekki síst Fram-liðið enda var það lykilatriði liðsins til að skora því leiðirnar framhjá sterkri vörn Vals.
Valur hóf síðari hálfleik af miklum ákafa, ekki síst í vörninni og hvorki gekk né rak hjá Fram sem var sex mörkum undir, 19:13, eftir liðlega tíu mínútur. Mest náði Valur átta marka forskot, 22:14 þegar tíu mínútur voru eftir. Leikurinn leystist upp á síðustu mínútum og tókst Fram aðeins að klóra í bakkann svo ekki yrði um stóran skell þegar upp var staðið.
Valsliðið lék afar vel að þessu sinnni. Ekki síst var varnarleikur liðsins hreint framúrskarandi með Önnu Úrsúlu, Gerði Arinbjarnar, Hildi Björnsdóttur, Díönu Dögg Magnúsdóttur og Lovísu Thompson í aðalhlutverkum. Auk þess var Íris Björk Símonardóttir vel á verði í markinu. Sóknarleikurinn gekk einnig vel í síðari hálfleik.
Fram-liðið náði sér aldrei á strik að þessu sinni og því fór sem fór. Meðan Valur náði að töfra fram sínar stýrkleika tókst Fram-liðinu það ekki.
Ragnheiður Júlíusdóttir var markahæst hjá Fram með sjö mörk. Lovísa Thompson skoraði níu mörk fyrir Val og var atkvæðamest í sóknarleiknum.