Selfoss fallið eftir tap gegn ÍBV

Ester Óskarsdóttir fór mikinn í liði ÍBV í dag og …
Ester Óskarsdóttir fór mikinn í liði ÍBV í dag og skoraði níu mörk. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Selfoss er fallið úr úrvalsdeild kvenna, Olísdeildinni, í handknattleik eftir níu marka tap gegn ÍBV á Selfossi í dag í 19. umferð deildarinnar en Ester Óskarsdóttir, leikmaður ÍBV, átti stórleik og skoraði níu mörk en leiknum lauk með 28:19-sigri ÍBV.

Selfyssingar skoruðu fyrsta mark leiksins en ÍBV náði þriggja marka forskoti þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Selfyssingum tókst að jafna metin og var staðan 6:6 þegar tuttugu mínútur voru liðnar af leiknum. ÍBV kláraði fyrri hálfleikinn mun betur og var munurinn á liðunum fimm mörk í hálfleik, 14:9, ÍBV í vil.

ÍBV jók forskot sitt hægt og rólega í síðari hálfleik og náði mest tólf marka forskoti þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Selfyssingum tókst að laga stöðuna á síðustu tíu mínútum og minnka forskot ÍBV í níu mörk en lengra komust þær ekki og ÍBV fagnaði öruggum sigri.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði Selfyssinga með 5 mörk en Ester Óskarsdóttir fór fyrir liði ÍBV eins og áður sagði og þá varði Guðný Jenný Ásmundsdóttir 12 skot í marki ÍBV. Selfoss er því fallið úr deildinni með 4 stig þegar tvær umferðir eru eftir af tímabilinu en HK er í sjöunda sæti deildarinnar með 9 stig og getur Selfoss því ekki náð þeim að stigum.

ÍBV er í harðri baráttu um sæti í úrslitakeppninni en liðið er með 23 stig í fjórða sæti deildarinnar, jafn mörg stig og Haukar, en Hafnafjarðarliðið á leik til góða. KA/Þór er í fimmta sætinu með 19 stig eftir 19 leiki og á ennþá möguleika á sæti í úrslitakeppninni, fari svo að ÍBV tapi báðum sínum leikjum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert