KA fékk Selfoss í heimsókn í kvöld en liðin áttust við í 18. umferð Olís-deildar karla í handbolta. Eins og í öllum leikjum þurftu bæði lið sigur. KA til að koma sér endanlega úr fallhættu en Selfoss er að berjast á toppnum og þurfti að vinna til að hanga í toppliði Hauka.
KA-menn virtust ekki alveg meðvitaðir um nauðsyn þess að ná sér í stig og spiluðu þeir megnið af fyrri hálfleiknum mjög illa. Selfyssingar keyrðu á fullu gasi frá fyrstu mínútu og voru í bílstjórasætinu allan fyrri hálfleikinn. KA náði að hanga í þeim til að byrja með en um miðjan fyrri hálfleik stungu Selfyssingar af og frammistaða KA-manna var bara eins og gott atriði í sirkus.
Selfoss byggði þarna upp sjö marka forskot en staðan var 16:10 í hálfleik. Elvar Örn Jónsson virtist geta skorað að vild og Hergeir Grímsson raðaði inn mörkum úr hraðaupphlaupum og af vítalínunni.
KA-strákar mættu mun betur stemmdir í seinni hálfleikinn og þá sérstaklega Færeyingarnir Allan Norðberg og Áki Egilsnes. Þeir röðuðu inn mörkum en KA tókst aldrei að minnka mun Selfyssinga nema niður í tvö mörk. Gerðist það nokkrum sinnum en þá fóru KA-menn að fá brottvísanir auk þess sem þeir brenndu af kjörnum færum.
Selfoss hélt haus þrátt fyrir bölvað basl á köflum í seinni hálfleiknum og lauk leik með 29:27-sigri gestanna. Þeir eru því einu stigi á eftir Haukum í öðru sæti deildarinnar en KA er í níunda sæti, þremur stigum á undan Akureyri sem er í fallsæti.