Haukar með aðra hönd á titlinum

Daníel Þór Ingason fór mikinn í liði Hauka í kvöld …
Daníel Þór Ingason fór mikinn í liði Hauka í kvöld gegn Selfossi og skoraði sex mörk. mbl.is/Hari

Haukar eru komnir með aðra hönd á deildarmeistaratitil karla í handknattleik eftir tveggja marka sigur gegn Selfyssingum í 19. umferð Olísdeildarinnar í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld en leiknum lauk með 29:27-sigri Hauka.

Haukar byrjðu leikinn betur og leiddu með tveimur mörkum eftir tíu mínútna leik en þá vöknuðu Selfyssingar og þeir komust yfir, 9:8 þegar tíu mínútu voru eftir af fyrri hálfleik. Árni Steinn Steinþórsson kom Selfyssingum þremur mörkum yfir þegar þrjár mínútur voru eftir af hálfleiknum en Brynjólfur Snær Brynjólfsson lagaði stöðuna undir lok fyrri hálfleiks og staðan 15:13, Selfyssingum í vil, í hálfleik.

Elvar Örn Jónsson kom Selfyssingum í 16:13 í upphafi seinni hálfleiks en þá byrjaði Haukavélin að malla og þeim tómst að jafna metin í 16:16 og þegar korter var til leiksloka leiddu Hafnfirðingar með einu marki, 22:21. Þegar fimm mínútur voru til leiksloka var staðan jöfn 24:24 en þá tóku Haukar yfir leikinn og leiddu með þremur mörkum þegar þrjár mínútur voru til leiksloka. Þann mun tókst Selfyssingum ekki að vinna upp og Haukar fögnuðu sigri.

Daníel Þór Ingason fór fyrir liði Hauka í kvöld og skoraði sex mörk og Orri Freyr Þorkelsson skoraði fimm mörk. Hjá Selfyssingum var Elvar Örn Jónsson allt í öllu en hann skoraði 9 mörk. Grétar Ari Guðjónsson varði 10 skot í marki Hauka og Sölvi Ólafsson átta skot í marki Selfyssinga. Selfyssingar eru áfram í öðru sæti deildarinnar með 28 stig en Haukar eru nú með þriggja stiga forskot á toppnum með 31 stig.

Selfoss 27:29 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Leik lokið með tveggja marka sigri, 29:27.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert