Valsmenn bíða nú eftir því að vita hvað kemur út úr myndatöku sem Magnús Óli Magnússon fer í á morgun. Magnús varð fyrir hnémeiðslum á æfingu í gær en hann hefur verið einn allra besti leikmaður liðsins í vetur.
Mbl.is sló á þráðinn til Magnúsar í dag og sagðist hann í raun ekkert vita um alvarleika málsins. Hann fékk högg á æfingu og segir erfitt að átta sig á því hversu alvarleg meiðslin eru.
Magnús sagðist hafa lent í svipuðu atviki þegar hann lék í Svíþjóð. Þá hafi liðband trosnað en ekki slitnað og var hann þá frá í nokkrar vikur. „Ég vona það besta,“ sagði Magnús við mbl.is.