Selfoss er komið í 1:0 í einvíginu gegn ÍR í átta liða úrslitum Íslandsmóts karla í handbolta eftir nauman sigur á heimavelli í dag. Lokatölur urðu 27:26.
Leikurinn var jafn framan af og Björgvin Hólmgeirsson reyndist Selfyssingum erfiður. Hann skoraði nánast að vild í upphafi og fór fyrir sínum mönnum.
Á lokakafla fyrri hálfleiks tóku Selfyssingar við sér og breyttu stöðunni úr 9:10 í 15:11 og virtust vera að taka yfir leikinn en ÍR skoraði tvö síðustu mörkin í fyrri hálfleik og staðan var 15:13 í leikhléi.
Selfoss hafði frumkvæðið nánast allan seinni hálfleikinn en þegar tvær mínútur voru eftir jöfnuðu ÍR-ingar 26:26 og við tók æsispennandi lokakafli.
Elvar Örn Jónsson skoraði sigurmark Selfoss í síðustu sókn heimamanna þegar 40 sekúndur voru eftir en Kristján Orri Jóhannsson skaut framhjá á lokasekúndunni þegar ÍR-ingar freistuðu þess að jafna.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur Selfyssinga með 9/3 mörk og Haukur Þrastarson skoraði 7. Sölvi Ólafsson átti ágætan leik í marki Selfoss með 12 varin skot.
Hjá ÍR var Björgvin Hólmgeirsson markahæstur með 7 mörk og Sturla Ásgeirsson skoraði 5, öll af vítalínunni. Stephen Nielsen var ÍR-ingum mikilvægur en hann varði 15 skot í leiknum.
Liðin mætast næst í Breiðholtinu á mánudagskvöld og þar geta Selfyssingar tryggt sér sæti í undanúrslitum. Ef ÍR sigrar verður oddaleikur á Selfossi á miðvikudagskvöld.