Valur Íslandsmeistari í sautjánda sinn

Valur er Íslandsmeistari kvenna í handknattleik eftir fjöggurra marka sigur gegn Fram í þriðja leik liðanna í úrslitum Íslandsmótsins á Hlíðarenda í dag. Leiknum lauk með 25:21-sigri Valskvenna og vinna Valskonur því úrslitaeinvígið, samanlagt 3:0.

Jafnfræði var með liðunum til að byrja með en þegar fimm mínútur voru liðnar af leiknum tóku Valskonur öll völd á vellinum. Þær náðu fjögurra marka forskoti eftir átta mínútna leik, 6:2 en Framstúlkur neituðu að gefast upp og tókst að minnka forskot Valsliðiðsins í tvö mörk þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum, 7:5. Valsliðið komst í 10:7 og þá kom átta mínútna kafli í leiknum þar sem hvorugu liðinu tókst að skora. Þegar fjórar mínútur voru eftir af fyrri hálfleik leiddi Valur með þremur mörkum, 12:9, en Valsliðið átti frábæran leikkafla á síðustu mínútum fyrri hálfleiks og leiddu þær með sex mörkum í hálfleik, 15:9.

Framkonur byrjuðu seinni hálfleikinn af miklum krafti og Karen Knútsdóttir minnkaði muninn í tvö mörk þegar fimm mínútu voru liðnar af síðari hálfleik í 16:14. Þegar 40. mínútur voru liðnar af leiknum braut Hildur Þorgeirsdóttir sér leið í gegnum vörn Vals og jafnaði metin í 16:16 en þá vaknaði Valsliðið á nýjan leik og var staðan 19:17, Val í vil, þegar fimmtán mínútur voru til leiksloka. Framstúlkur neituðu að gefast upp og Ragnheiður Júlíusdóttir jafnaði metin fyrir Fram með marki af vítalínunni þegar átta mínútur voru til leiksloka, 20:20. Valskonur reyndust sterkari aðilinn á lokamínútunum og þegar Lovísa Thompson fór í gegn um vörn Fram þegar þrjár mínútur voru til leiksloka, og kom Valsliðinu þremur mörkum yfir, var björninn unninn.

Lovísa Thompson, Sandra Erlingsdóttir og Morgan Marie Þorkelsdóttir voru atkvæðamestar í liði Vals með fjögur mörk hver og þá varði Íris Björk Símonardóttir 16 skot í marki Vals, þar af þrjú vítaköst. Ragnheiður Júlíusdóttir og Karen Knútsdóttir voru markahæstar í liði Fram með 7 mörk hvor. Erla Rós Sigmarsdóttir í marki Fram varði 11 skot, þar af tvö vítaköst. Valskonur eru því Íslandsmeistarar í sautjánda sinn en liðið vann síðasta titilinn árið 2014 og er liðið þrefaldur meistari í ár.

Valur 25:21 Fram opna loka
60. mín. Íris Björk Símonardóttir (Valur) varði skot
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert