Selfoss í vænlegri stöðu eftir sigur

Árni Steinn Steinþórsson og Stiven Tobar Valencia í baráttu í …
Árni Steinn Steinþórsson og Stiven Tobar Valencia í baráttu í kvöld. mbl.is/Haraldur Jónasson/Hari

Selfoss er komið í vænlega stöðu eftir annan sigur á Val í undanúrslitum Íslandsmóts karla í handknattleik í Origo-höllinni í kvöld, 32:31, í hörkuskemmtilegum og jöfnum leik. Selfoss hefur þar með tvo vinninga en Valur engan. Selfoss getur tryggt sér sæti úrslitum með sigri á heimavelli á mánudagskvöldið.

Selfoss var marki yfir í hálfleik, 16:15.

Fyrri hálfleikur var stórskemtilegur af hálfu beggja liða. Hraður og kraftmikill leikur enda var skorað liðlega eitt marka á mínútu. Áhorfendur, sem fjölmenntu í Origo-höllina, voru vel með á nótunum, svo ekki skemmdi stemingin fyrir fjörinu.

 Vart mátti á milli þeirra sjá en Selfoss-liðið var þó lengst af með eins marks forystu eftir að Valsliðið var öflugra á fyrstu tíu mínútum. Sóknarleikurinn var í aðalhlutverki, stundum á kostnað varnarleiksins. Hraðaupphlaup voru mörg og gekk misjafnlega hjá liðunum á nýta þau. Markverðir beggja liða voru vel á nótunum, þá sérstaklega Sölvi Ólafsson. Hann varði 11 skot í fyrri hálfleik, mörg hver úr opnum færum. Daníel Freyr Andrésson var einnig á tánum í marki Vals.

Staðan var 16:15 fyrir Selfoss að eftir fyrri hálfleik en Daníel Freyr kom í veg fyrir að forskotið væri tvö mörk þegar hann varði frá Atla Ævari Ingólfssyni á síðustu andartökum hálfleiksins.

Síðari hálfleikur var einnig hnífjafn og spennandi. Selfoss náði þriggja marka forskoti snemma en Valsmenn voru búnir að jafna metin og komast marki yfir, 19:18, eftir nærri tíu mínútna leik. Eftir það var jafnt á öllum tölum þar til tæpar tíu mínútur voru til leiksloka. Þá komst Selfoss þremur mörkum yfir, 27:24. Aftur jöfnuðu Valsmenn en þeim tókst aldrei að komast yfir. Selfoss náði tveggja marka forskoti, 30:28, tveimur mínútum fyrir leikslok. Þann mun náði Valsmenn aldrei að jafna.

Á heildina var leikurinn vel leikinn og hin besta skemmtun.

Árni Steinn Steinþórsson fékk rauða spjaldið þegar sjö mínútur voru eftir þegar olnbogi hans slóst í kinnina á Alexander Erni Júlíussyni, Valsmanni, þegar Árni Steinn sótti að marki Vals. Mikið blæddi úr Alexander. Óvíst er hvort höggið hefur áhrif á þátttöku hans í leiknum á mánudaginn.

Anton Rúnarsson var markahæstur hjá Val með níu mörk. Róbert Aron Hostert var næstur með sjö mörk. Daníel Freyr Andrésson varði 9 skot í marki Vals í fyrri hálfleik og Einar Baldvin Baldvinsson sjö í þeim síðari.

Elvar Örn Jónsson skoraði átta mörk fyrir Selfoss og þeir Hergeir Grímsson og Haukur Þrastarson sex mörk hvor. Sá síðarnefndi lagði einnig upp mörg mörk.

Sölvi Ólafsson átti stórleik í marki Selfoss. Hann varði 18 skot.

Valur 31:32 Selfoss opna loka
60. mín. Anton Rúnarsson (Valur) skoraði mark - 55 sekúndur til leiksloka.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert