Selfoss sópaði Valsmönnum úr keppni

Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga getur leyft sér að fagna í …
Patrekur Jóhannesson þjálfari Selfyssinga getur leyft sér að fagna í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Selfoss er kominn í úrslit á Íslandsmótinu í handknattleik eftir þriggja marka sigur á Val, 29:26, í þriðja leik liðanna í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld. Selfoss sópaði þar með Valsmönnum úr keppni í þremur leikjum. Þetta er í fyrsta sinn í 27 ár sem Selfoss leikur til úrslita á Íslandsmóti karla í handknattleik. Ekki er ljóst hvort Haukar eða ÍBV mæta Selfoss-liðinu í úrslitaleikjum.

Eins og hinir tveir leikir þessara liða í undanúrslitunum var viðureignin fjörug og skemmtileg og báðum liðum til sóma.

Hún var ekki amaleg stemningin í Hleðsluhöllinni í kvöld. Áhorfendapallarnir voru óvenjuþétt skipaðir að sögn heimamanna. Bekkirnir voru nær fullskipaðir hálftíma fyrir leik en söngur og gleði var löngu hafin í salnum. Hávaðinn mikill. Heimamenn í miklum meirihluta og þeir drógu ekki af sér í stuðningi við sitt lið.

Fyrri hálfleikur í kvöld var að hluta til endurtekning á fyrri hálfleik liðanna í annarri viðureigninni. Sóknarleikurinn var í aðalhlutverki og jafnt á flestum tölum. Markvarslan var að vísu slakari en í annarri viðureigninni. Margt annað var eins. Staðan í hálfleik var 17:14 en forskoti sínu náðu heimamenn á síðustu mínútunni.

Leikmenn  Selfoss voru mun ákveðnari, jafnt í vörn sem sókn í fyrri hluta síðari hálfleiks. Þeir voru komnir með fjögurra marka forskot þegar hálfleikurinn var hálfnaður, 24:20. Upp úr leikhléi Valsmanna um það leyti gerðu þeir sitt áhlaup. Þeim tókst strax að minnka muninn í tvö mörk, 24:22. Selfoss-liðinu tókst að standast áhlaupið og snúa vörn í sókn á ný vel studdir af áhorfendum sem létu sitt ekki eftir liggja. Sjö mínútum fyrir leikslok náð Selfoss í fyrsta sinn fimm marka forskoti, 27:22. Róðurinn var þar með farinn að þyngjast fyrir Valsmenn en þó ekki svo að þeir legðu árar í bát. Þeim tókst að minnka muninn á ný niður í tvö mörk rúmlega mínútu fyrir leikslok. Nær komust þeir ekki og Selfyssingar fögnuðu lengi og vel á gólfi Hleðsluhallarinnar. Hún verður vettvangur fleiri leikja í úrslitakeppninni á þessu vori.

Elvar Örn Jónsson var markahæstur heimamanna með sex mörk. Hergeir Grímsson var næstur með fimm mörk. Anton Rúnarsson var markahæstur leikmanna Vals með átta mörk. Ýmir Örn Gíslason var næstur með sex mörk.

Guðni Ingvarsson fer inn af línunni á Selfossi í kvöld.
Guðni Ingvarsson fer inn af línunni á Selfossi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon
Selfoss 29:26 Valur opna loka
60. mín. Arnór Snær Óskarsson (Valur) skoraði mark - of seint, eða hvað?
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert