Meidd og sagt upp hjá ÍBV

Guðný Jenny Ásmundsdóttir.
Guðný Jenny Ásmundsdóttir. Ljósmynd/Sigfús Gunnar

Guðnýju Jennyju Ásmundsdóttur, landsliðsmarkverði í handknattleik, var á dögunum sagt upp samningi sínum við ÍBV á þeim forsendum að félagið hefði ekkert við meiddan markvörð að gera.

Samningnum var sagt upp munnlega af formanni handknattleiksdeildar ÍBV á fundi í búningsklefa karlaliðsins í handknattleik í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum.

Jenny sleit krossband í hné í upphitun fyrir landsleik í Póllandi í síðari hluta mars og gekkst undir aðgerð á mánudaginn. Komið hefur í ljós að Jenny var ekki tryggð hjá ÍBV.

„Sextánda apríl var ég kölluð á fund formanns handknattleiksdeildar ÍBV í íþróttahúsinu í Vestmannaeyjum. Þegar ég kom þangað var ekkert fundarherbergi laust svo hann fékk mig til þess að koma með sér inn í karlaklefa handboltaliðsins. Þar settist formaðurinn niður á bekkinn og tilkynnti mér að félagið ætlaði að nýta sér riftunarákvæði í samningi við mig. Forsendur væru að ÍBV hefði ekkert við meiddan markvörð að gera,“ sagði Jenny í samtali við Morgunblaðið.

Uppsögnin kom sem þruma úr heiðskíru lofti. Jenny talaði við formanninn þegar hún kom heim eftir að hafa meiðst í fyrrgreindri landsliðsferð og sagði honum að hún stefndi ótrauð á að halda áfram og mæta til leiks á næsta keppnistímabili. Raunhæft er að Jenny geti verið klár í að leika aftur snemma á næsta ári.

„Formaðurinn sagði mér á fundinum að illa gengi að fjármagna rekstur deildarinnar. Leitað væri allra leiða til sparnaðar og rætt hefði verið í því skyni við einhverja aðila sem ég veit ekki hverjir eru. Þeir höfðu að minnsta kosti ekki rætt við mig áður en að fyrrgreindum fundi kom 16. apríl. Mér hefði ekki þótt óeðlilegt að kalla mig til fundar og ræða um hvort hægt væri að endursemja. Ég tel að minnsta kosti að hægt hefði verið að leysa málið á ýmsan annan hátt en gert var,“ sagði Jenny ennfremur.

Sjá ítarlegt viðtali við Guðnýju Jenny á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert