Selfoss tók forystu í úrslitarimmunni við Hauka um Íslandsmeistaratitlinn í handknattleik karla með fimm marka sigri, 27:22, í fyrsta leik liðanna í Schenker-höllinni á Ásvöllum í kvöld. Stórleikur Sölva Ólafssonar markvarðar lagði grunn að þessum sigri með frammistöðunni í marki Selfoss. Hann fór hreinlega hamförum og varði 26 skot. Hann lokaði markinu á köflum í leiknum, ekki síst í lokin þegar Haukar höfðu jafnað metin og reyndar komist yfir.
Næsti leikur liðanna verður á Selfossi á föstudagskvöldið.
Haukar byrjuðu leikinn betur og skoruðu fimm af fyrstu átta mörkum leiksins á upphafsmínútunum sex. En þá sneru leikmenn Selfoss leiknum sér í hag. Þeir breyttu vörn sinni. Komu betur út á móti skyttum Hauka og slógu vopnin nokkuð úr höndum þeirra. Selfoss-liðið gekk á lagið og skoraði sex mörk gegn einu á um tíu mínútum og sneri leiknum sér í hag. Varnarleikurinn var frábær, sóknarleikurinn afar vel útfærður þar sem færi skapaðist í hverri sókn og þegar á leið gekk betur að koma boltanum fram hjá Grétari Ara Guðjónssyni, markverði Hauka, sem reyndist Selfoss-liðinu óþægur ljár í þúfu framan af fyrri hálfleik.
Ekki spillti fyrir að Sölvi Ólafsson fór hamförum í marki Selfoss og varði alls 12 skot í hálfleiknum. Selfoss komst fjórum mörkum yfir, 14:10, þegar skammt var til leiksloka og átti möguleika á að ná fimm marka forystu. Það tókst ekki. Haukar minnkuðu muninn í þrjú mörk, 14:11, og áttu þess kost að koma forystu Selfoss niður í tvö mörk fyrir hálfleikinn. Sölvi Ólafsson kom í veg fyrir það er hann varði vítakast frá Daníel Þór Ingasyni þegar leiktíminn var út.
Haukar hófu síðari hálfleik mun betur í vörninni. Ákafinn var meiri og það skilaði sér í að leikmenn Selfoss náðu ekki að opna vörnina á eins einfaldan hátt og stundum fyrr í leiknum. Haukar jöfnuðu metin, 17:17, eftir níu mínútna leik í síðari hálfleik.
Jafnt var áfram á öllum tölum og spennan gríðarleg innan vallar sem utan. Haukar komust loksins yfir, 20:19, þegar réttar tíu mínútur voru til leiksloka. Elvar Örn Jónsson jafnaði metin í kjölfarið. Það sem við tók var hins vegar stórbrotinn kafli þar sem Sölvi varði allt sem á markið kom auk þess sem sóknarmennirnir skiluðu sínu. Skyndilega var munurinn orðinn fjögur mörk, 25:21, og þrjár mínútur til leiksloka. Þann mun var um megn fyrir Hauka að vinna upp. Selfoss tekur þar með frumkvæðið í rimmunni.
Eins og við var að búast var hraðinn gríðlegur í leiknum frá upphafi. Liðin buðu upp á mikla og góða skemmtun. Þá skemmdi ekki fyrir að stemningin var hreinlega mögnuð á Ásvöllum í kvöld.
Sölvi var sem fyrr segir maður leiksins. Hann varði 25 skot og féll Haukum hreinlega allur ketill í eld þegar þeir mættu honum þegar á leikinn leið.
Elvar Örn Jónsson var markahæstur hjá Selfossi með sex mörk.
Daníel Þór Ingason var atkvæðamestur hjá Haukum með sjö mörk.