Sigurmarkið kom á síðustu sekúndunni

Daníel Þór Ingason sækir að Árna Stein Steinþórssyni á Selfossi …
Daníel Þór Ingason sækir að Árna Stein Steinþórssyni á Selfossi í kvöld. mbl.is/Kristinn Magnússon

Haukar hafa jafnað í einvíginu gegn Selfyssingum í úrslitarimmunni um Íslandsmeistaratitilinn í handbolta með mögnuðum 27:26 sigri í Hleðsluhöllinni á Selfossi í kvöld.

Það var jafnt á nánast öllum tölum fyrstu fimmtán mínúturnar en þá tóku Haukarnir frumkvæðið og náðu tveggja marka forskoti, 8:6.

Síðasta korterið í fyrri hálfleik var hins vegar eign Selfyssinga þar sem þeir skoruðu átta mörk gegn einu og breyttu stöðunni í 14:9. Haukar svöruðu fyrir sig með tveimur síðustu mörkum fyrri hálfleiks. Tjörvi Þorgeirsson lokaði fyrri hálfleiknum með ótrúlegu marki úr aukakasti þegar leiktíminn var liðinn, 14:11 í leikhléi.

Selfoss hélt forystunni fyrstu átta mínúturnar í seinni hálfleik en þá jöfnuðu Haukar 18:18. Selfyssingar voru skrefinu á undan í framhaldinu en leikurinn var æsispennandi og mikið um mistök. Haukar náðu frumkvæðinu á lokamínútunum og Tjörvi kom þeim í 26:25 þegar ein og hálf mínúta var eftir.

Haukur Þrastarson jafnaði fyrir Selfoss þegar 36 sekúndur voru eftir, Haukar tóku leikhlé og síðasta sókn þeirra virtist vera að renna út í sandinn. Daníel Þór Ingason setti í heilaga Maríu af löngu færi þegar þrjár sekúndur voru eftir og negldi inn sigurmarkinu.

Haukur Þrastarson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk og Nökkvi Dan Elliðason skoraði 5/2. Sölvi Ólafson varði 10 skot í marki Selfoss.

Hjá Haukum var Orri Freyr Þorkelsson markahæstur með 8/3 mörk. Tjörvi Þorgeirsson skoraði 5. Markverðir Hauka voru góðir í kvöld. Grétar Ari Guðjónsson varði 12 skot og Andri Sigmarsson Scheving 7, þar af 3 vítaskot.

Staðan í einvíginu er 1:1 og liðin mætast næst í Hafnarfirði á sunnudagskvöld kl. 18:00. Að sjálfsögðu verður leikurinn í beinni á mbl.is

Selfoss 26:27 Haukar opna loka
60. mín. Leik lokið Algjörlega magnað einvígi. Þetta hékk á bláþræði hjá Haukum en Daníel negldi inn sigurmarkinu á ögurstundu. Næsti leikur í Hafnarfirði á sunnudag! Þetta verður eitthvað!
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert