Selfoss er einum sigri frá því að tryggja sér Íslandsmeistaratitil karla í handbolta eftir 32:30-útisigur á Haukum í framlengdum þriðja leik liðanna í kvöld. Staðan í einvíginu er nú 2:1 og verða Selfyssingar Íslandsmeistarar með sigri á heimavelli á miðvikudag.
Jafnt var á næstum öllum tölum fyrsta korterið og skiptust liðin á að skora. Staðan var 8:8 eftir fimmtán mínútna leik. Þá kom flottur kafli hjá Haukum sem skoruðu þrjú mörk í röð og breyttu stöðunni í 11:8.
Patrekur Jóhannesson, þjálfari Selfyssinga, leikhlé og við það lagaðist leikur gestanna. Vörnin gekk betur og tókst gestunum að lokum að jafna í 14:14, þegar nokkrar sekúndur voru eftir af fyrri hálfleik. Haukar svöruðu hins vegar hinum megin og var staðan því 15:14, Haukum í vil í hálfleik.
Helsti munurinn á liðunum í fyrri hálfleiknum var markvarslan. Hvorki Pawel Kiepulski né Sölvi Ólafsson náðu sér á strik í marki Selfoss í fyrri hálfleik á meðan Grétar Ari Guðjónsson stóð sig ágætlega í marki Hauka. Andri Sigmarsson Scheving kom inn á í tveimur vítaköstum og varði þau bæði.
Haukar voru sterkari á upphafmínútum seinni hálfleiks og náðu þeir aftur þriggja marka forskoti snemma í honum, 19:16. Patrekur tók þá aftur leikhlé og eins og í fyrri hálfleik virkaði það vel fyrir gestina og minnkuðu þeir muninn í 19:18.
Haukar náðu hins vegar aftur þriggja marka forystu og var staðan 23:20 þegar seinni hálfleikur var hálfnaður. Haukar voru svo fimm mörkum yfir þegar tæpar tíu mínútur voru eftir, 26:21.
Þá tók Patrekur Jóhannesson sitt þriðja og síðasta leikhlé og svar Selfyssinga var magnað. Þeir skoruðu fimm mörk í röð og jöfnuðu í 26:26. Eftir æsispennandi lokasekúndur þar sem bæði lið gátu tryggt sér sigurinn, var staðan 27:27 þegar lokaflautið gall og því varð að framlengja.
Selfyssingar voru sterkari aðilinn í fyrri hálfleik framlengingarinnar og var staðan eftir hann 29:28, gestunum í vil. Haukar byrjuðu seinni hálfleikinn á að jafna í 29:29. Selfoss skoraði næstu tvö mörk og komst í 31:29 og tókst Haukum ekki að jafna eftir það.