„Ótrúlega stolt og ánægð“

Rut Jónsdóttir ásamt Ólafi Gústafssyni kærasta sínum og hinum eins …
Rut Jónsdóttir ásamt Ólafi Gústafssyni kærasta sínum og hinum eins árs gamla Gústaf Bjarka með verðlaunagripinn í kvöld.

„Það eru búin að vera þvílík fagnaðarlæti, við náðum að fara í sturtu en svo erum við núna á leið til Esbjerg þar sem verður fagnað áfram,“ segir Rut Jónsdóttir glaðbeitt við mbl.is eftir að hafa fyrst íslenskra handboltakvenna orðið Danmerkurmeistari í kvöld.

„Mér líður ótrúlega vel með þetta og það er svo gott að hafa endað tímabilið svona. Það var svo svekkjandi að tapa fyrir tíu dögum úrslitaeinvíginu í Evrópukeppninni en ótrúlega sætt að vinna í dag,“ segir Rut en hún komst með Esbjerg í úrslitaeinvígi EHF-keppninnar þar sem liðið tapaði fyrir Siófok frá Ungverjalandi. Í úrslitunum í Danmörku vann liðið hins vegar tvo leiki gegn Herning, þann seinni á útivelli í kvöld með eins marks mun, 20:19:

„Leikurinn varð mjög spennandi. Við vorum með fínt forskot en svo kom spenna í þetta í lokin, sem var bara fínt. Mér fannst við alltaf vera með þetta. Ég var inni á í lokin og það er betra því maður verður stressaðri utan vallar. Það var svolítið klúður þegar markvörðurinn okkar hljóp of snemma inn á og fékk tveggja mínútna brottvísun, en bara frábært að við skyldum klára þetta með sigri,“ segir Rut.

Gott að finna að maður sé kominn aftur

Keppnistímabilið í vetur hefur ekki verið neinn dans á rósum fyrir landsliðskonuna sem glímt hefur mikið við meiðsli eftir að hún hóf að spila að nýju í kjölfar þess að hafa eignast son í byrjun síðasta árs. Hún var hins vegar klár í slaginn þegar mest lá við nú í lok tímabilsins:

„Þetta er búið að vera mjög erfitt og ég er svo ótrúlega stolt og ánægð með að hafa getað verið með núna og tekið þátt í þessum úrslitaleikjum. Ég er búin að vera með síðustu tvo mánuði en fengið að spila mikið meira í þessum allra síðustu leikjum og það er gott að finna að maður sé alveg kominn aftur.“

Heillar að spila aftur í Meistaradeildinni

Rut verður því einnig mætt aftur í burðarhlutverk í íslenska landsliðinu um komandi mánaðamót: „Við fögnum þessum titli vel en svo fer ég til móts við landsliðið og við förum að undirbúa okkur fyrir þessa mikilvægu leiki við Spán í umspilinu um sæti á HM.“

Samningur Rutar við Esbjerg er að renna út en þau Ólafur Gústafsson, sem einnig er landsliðsmaður í handbolta, kunna vel við sig í Danmörku.

„Við munum ræða það á næstu vikum hvernig framhaldið verður. Óli kærastinn minn er að spila með Kolding sem hélt sér uppi svo að líklegast verðum við áfram í Danmörku. Esbjerg mun spila í Meistaradeildinni á næstu leiktíð, sem ég hef prófað áður og það er ótrúlega skemmtilegt, þannig að ef að við verðum í Danmörku þá vil ég vera hér. Það er gaman að vera hluti af svona flottu liði en við verðum bara að bíða og sjá.“

Rut segir að sigrinum verði vel fagnað í kvöld enda …
Rut segir að sigrinum verði vel fagnað í kvöld enda full ástæða til.
Leikmenn Esbjerg fagna meistaratitlinum á heimavelli Herning í kvöld.
Leikmenn Esbjerg fagna meistaratitlinum á heimavelli Herning í kvöld.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert