Óvissa ríkir um þátttöku Ómars Inga Magnússonar í leikjum íslenska landsliðsins í handknattleik sem framundan eru í undankeppni Evrópumótsins. Hann hlaut þungt höfuðhögg í síðustu viðureign Aalborg og Bjerringbro/Silkeborg í undanúrslitum um danska meistaratitilinn 26. maí og hefur af þeim sökum ekki leikið með Álaborgarliðinu í tveimur leikjum þess gegn GOG um meistaratitilinn. Afleiðingar höfuðhöggsins er heilahristingur.
Af þeim sökum hefur Ómar Ingi þurft að hafa hægt um sig síðustu daga sem algjör nauðsyn eftir að hafa orðið fyrir heilahristingi.
Guðmundur Þórður Guðmundsson, landsliðsþjálfari í handknattleik, sagði við mbl.is fyrir æfingu íslenska landsliðsins í Framhúsinu fyrr í dag, hafa áhyggjur af Ómari Inga og þátttöku hans í leikjunum við Grikki ytra í næstu viku og Tyrki í Laugardalshöll 16. júní. Leikirnir eru þeir síðustu sem íslenska liðið leikur í 3. riðli undankeppninni.
Eftir því sem næst verður komist er ólíklegt Ómar Ingi leiki með Aalborg gegn GOG í úrslitaleik liðanna um danska meistaratitilinn sem fram fer á sunnudaginn. Höfuðhöggið og afleiðingar þess er mikið áfall fyrir Ómar Inga sem hafði farið á kostum með Aalborg á leiktíðinni í dönsku úrvalsdeildinni. Hann var í vikunni valinn í úrvalslið deildarinnar á keppnistímabilinu