Íslandsmeistaralið Selfoss í handbolta karla er enn þjálfaralaust en Patrekur Jóhannesson kvaddi liðið með Íslandsmeistaratitlinum í síðasta mánuði og tekur við þjálfun danska úrvalsdeildarliðsins Skjern í næsta mánuði.
Í janúar gerði Selfoss samning við Hannes Jón Jónsson um að hann tæki við þjálfun liðsins í sumar en í apríl rifti Hannes samningi sínum við Selfyssinga og gerði tveggja ára samning við þýska liðið Bietigheim.
„Það er lítið að frétta af okkar þjálfaramálum. Það er ekkert komið í hendi enn sem komið. Við höfum lagt áherslu á að finna góðan íslenskan þjálfara enda teljum við að við eigum talsvert mikið af frambærilegum þjálfurum hér á landi. Við erum ekki búnir að hitta í mark enn þá. Við erum búnir að ræða við ýmsa þjálfara eftir Hannes Jón sveik okkur en það hefur ekki skilað neinu enn þá,“ sagði Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss, í samtali við mbl.is í dag.
„Við höfum haldið það í nokkrar vikur að við værum að klára þessi mál og að landa góðum manni en svo hefur það ekki gengið upp á síðustu metrunum. Stundum virkar Hellisheiðin löng í aðra áttina,“ sagði Þórir.