Eva Björk til toppliðs í Svíþjóð

Eva Björk Davíðsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Spánverjum …
Eva Björk Davíðsdóttir í leik með íslenska landsliðinu gegn Spánverjum í Laugardalshöll. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Eva Björk Davíðsdóttir, landsliðskona í handknattleik, er búinn að semja við sænska úrvalsdeildarliðið Skuru til eins árs en hún hefur spilað með liði Ajax Köbenhavn frá árinu 2017.

Eva er 25 ára gömul og leikur í stöðu leikstjórnanda. Hún lék upp yngri flokka og upp í meistara­flokk með Gróttu og varð m.a. Íslands­meist­ari með liðinu 2015 og 2016 auk þess að verða bikar­meist­ari með Seltirn­ing­um fyrra árið sem lið þeirra varð Íslands­meist­ari. Hún lék í eitt ár með Sola í Noregi áður en hún fór til Ajax. Eva hefur átt fast sæti í íslenska landsliðinu um nokkurra ára skeið.

Ég er mjög ánægð með að fara til Skuru og hlakka til að hitta liðið og byrja á nýju tímabili. Það verður mjög spennandi og ég tel að þetta sé mikilvægt skref á ferli mínum,“ segir Eva Björk í Skuru á vef félagsins.

„Eva Björk er fjölhæfur leikmaður sem hefur gott auga fyrir spili og er góður varnarmaður. Ég er mjög ánægður með að geta styrkt hópinn með leikmanni eins og Eva er,“ segir Mats Kardell þjálfari Skuru.

Skuru varð deildarmeistari á síðustu leiktíð og komst í úrslitaeinvígið um sænska meistaratitilinn þar sem liðið tapaði fyrir Sävehof 3:0.

 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert