Einar Ingi Hrafnsson, leikmaður Aftureldingar, telur að ef allir leikmenn liðsins haldist heilir í vetur geti Afturelding hæglega blandað sér í baráttu um deildarmeistaratitilinn.
Afturelding fær KA í heimsókn í Mosfellsbæ á sunnudaginn kemur, en liðið endaði í sjötta sæti deildarinnar á síðustu leiktíð og féll úr leik í átta liða úrslitum Íslandsmótsins eftir tap gegn Val. Aftureldingu er spáð sjötta sætinu á nýjan leik af fyrirliðum og þjálfurum deildarinnar.
„Tímabilið leggst mjög vel í mig og okkur í Aftureldingu. Það eru allir mjög bjartsýnir fyrir komandi tímabil, mikil tilhlökkun í Mosfellsbænum og allt undir sjötta sætinu yrði vonbrigði fyrir okkur myndi ég segja. Það eru mjög sterk lið í þessari deild en við erum með okkar markmið og það er að gera betur en sjötta sætið.
Deildin er mjög jöfn og það eru í raun átta lið þarna sem geta öll unnið hvert annað þegar þannig liggur við. Við förum með háleit markmið inn í þetta tímabil en við gerum okkur líka grein fyrir því að það eru önnur lið í þessari deild sem eru gríðarlega vel mönnuð.“
Morgunblaðið fjallar í þessari viku og þeirri næstu um liðin í Olísdeild karla, fær álit sérfræðings um liðin, ræðir við leikmenn og birtir leikmannahópa. Á íþróttasíðum Morgunblaðsins í dag er fjallað um Stjörnuna og Aftureldingu.