Janus Daði Smárason, landsliðsmaður í handbolta, er búinn að skrifa undir tveggja ára samning við þýska félagið Göppingen. Janus gengur formlega í raðir þýska félagsins fyrir næsta tímabil.
Samkvæmt frétt á heimasíðu þýska félagsins hefur það lengi fylgst með leikstjórnandanum, en hann heimsótti félagið í ágúst, skoðaði aðstæður og ræddi við forráðamenn Göppingen.
Janus hefur verið mikilvægur hlekkur hjá Álaborg í Danmörku og varð hann m.a. tvöfaldur meistari með liðinu á síðustu leiktíð. Janus lék með íslenska landsliðinu á lokamóti HM 2017 og EM 2018.
„Ég er mjög glaður með að fá þetta tækifæri og vonandi get ég hjálpað liðinu að ná Evrópusæti,“ sagði Janus í samtali á heimasíðu félagsins.